Fótbolti

Síðasta tækifærið til að vinna Albani á Qemal Stafa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Qemal Stafa leikvangurinn í Tírana.
Qemal Stafa leikvangurinn í Tírana. Mynd/Nordic Photos/Getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Albönum í undankeppni HM á morgun og fer leikurinn fram á Qemal Stafa leikvanginum í Tírana. Þetta verður í þriðja sinn sem íslenska landsliðið spilar á vellinum en fyrstu tveir leikirnir töpuðust. Þetta verður næst síðasti leikurinn á þessum leikvangi því það kemur fram á heimasíðu KSÍ að völlurinn verður rifinn eftir leik Albaníu og Slóveníu á þriðjudag í næstu viku og nýr leikvangur byggður á sama stað.

Qemal Stafa leikvangurinn var byggður á árum seinni heimsstyrjaldar, og er því kominn vel til ára sinna. Árið 1939 hernámu Ítalir Albaníu og var bygging leikvangsins að þeirra frumkvæði.

Lengi vel var þessi gamalgróni leikvangur sá eini í landinu sem gat hýst stóra knattspyrnuleiki og frjálsíþróttaviðburði, en margir áratugir eru síðan síðast var keppt í frjálsum þar. Lengi vél léku þrjú félagslið höfuðborgarinnar sína heimaleiki á vellinum, auk leikja landsliðsins, þannig að óhætt er að segja að nýtingin hafi verið góð, þó það hafi oft komið niður á gæðum grassins, að sögn heimamanna.

Albanir unnu 1-0 sigur á Íslandi á vellinum 26. maí 1991 í undankeppni EM og svo 2-1 sigur í vináttulandsleik 31. mars 2004. Leikvangurinn tekur um 15 þúsund áhorfendur í sæti, en reiknað er með á bilinu 10 til 12 þúsund manns á leikinn við Ísland á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×