Fótbolti

Fyrirliði Færeyja: Zlatan var svo barnalegur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Mynd/AFP
Fróði Benjaminsen, fyrrum leikmaður Fram og fyrirliði færeyska landsliðsins, lenti í stappi við Zlatan Ibrahimovic í leik Færeyja og Svía í Þórshöfn í Færeyjum í gær en sænski landsliðsfyrirliðinn var orðinn pirraður þegar ekkert gekk hjá Svíum að skora í fyrri hálfleiknum.

Fróði Benjaminsen tjáði sig um samskiptin við stórstjörnuna Zlatan Ibrahimovic í viðtali við færeyska blaðið Dimmalætting og gamli Framarinn ber Zlatan ekki góða söguna.

„Zlatan gaf mér vænt olnbogaskot í lok fyrri hálfleiksins. Á leiðinni útaf þá spurði ég hann hvað hann væri að gera. Hann greip síðan í mig þegar við vorum komnir inn í bygginguna og hann sagði ekki falleg orð við mig. Hann talaði meðal annars um hvar hann spilaði og hvað hann fengi í laun. Hann var svo barnalegur," sagði Fróði Benjaminsen sem hrinti Zlatan í kjölfarið. Fróði neitar að það hafi orðið einhver frekari átök.

Rógvi Baldvinsson kom Færeyingum í 1-0 á 57. mínútu leiksins en varamaðurinn Alexander Kacaniklic jafnaði þremur mínútum eftir að hann kom inn á fyrir Christian Wilhelmsson á 62. mínútu. Zlatan lagði upp markið fyrir hann og tryggði síðan Svíum öll þrjú stigin á 75. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×