Íslenski boltinn

Sigurður Egill kominn í sama félag og stóra systir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Egill Lárusson, til hægri, í leik á móti Val.
Sigurður Egill Lárusson, til hægri, í leik á móti Val. Mynd/Anton
Sigurður Egill Lárusson, knattspyrnumaður úr Víking, er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við Val og mun því spila í Pepsi-deildinni næsta sumar. Sigurður Egill er 20 ára gamall vinstri fóta leikmaður sem getur spilað margar stöður á vellinum. Hann var í lykilhlutverki hjá Víkingum í sumar og skoraði 9 mörk á tímabilinu.

Sigurður Egill á góðar tengingar í Val en hann er yngri bróðir Dóru Maríu Lárusdóttur leikmanns í meistaraflokki kvenna hjá Val og íslenska landsliðinu en Dóra María hefur spilað með Val allan sinn feril hér á landi.

„Ég er mjög ánægður að vera kominn til Vals. Þetta er stór og flottur klúbbur með mikla hefð, topp aðstæður og allt til alls. Eftir að hafa talað við stjórnamenn og Magnús Gylfa var ég sannfærður um að þetta væri rétt skref. Ég er uppalinn í Víkinni og langar mig að þakka Víkingum fyrir góðan tíma og óska þeim alls hins besta í framtíðinni. Það eru spennandi tímar framundan hjá Val og ég hlakka til að byrja að æfa með nýjum liðsfélögum," sagði Sigurður Egill Lárusson í fréttatilkynningu frá Val.

Sigurður Egill hefur leikið 17 leiki með yngri landsliðum Íslands og var valin efnilegasti leikmaður 1. deildar í hófi hjá vefsíðunni Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×