Fótbolti

Góður sigur Íslands í Úkraínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland er í góðum málum eftir fyrri leik sinn gegn Úkraínu í umspili fyrir EM 2013 í Svíþjóð. Stelpurnar okkar unnu 3-2 sigur á útivelli í morgun.

Íslendingar komust í 2-0 forystu í fyrri hálfleik með mörkum Katrínar Ómarsdóttur og Hólmfríðar Magnúsdóttur.

Heimamenn minnkuðu hins vegar metin í lok fyrri hálfleiks og skoruðu svo jöfnunarmark í upphafi síðari hálfleiksins.

Margrét Lára Viðarsdóttir reyndist svo hetja íslenska liðsins er hún skoraði sigurmarkið á 64. mínútu.

Bæði lið fengu færi til að skora eftir þetta en niðurstaðan varð 3-2 sigur Íslands.

Síðari leikurinn fer fram á Laugardalsvelli á fimmtudagskvöldið og hefst hann klukkan 18.30.

Fylgst var með leiknum hér á Vísi.

Leik lokið: Frábær sigur Íslands staðreynd í Sevastopol. Ísland fer í seinni leikinn með eitt mark í plús og þrjú útivallarmörk.

64. mínúta: 3-2 fyrir Íslandi! Margrét Lára Viðarsdóttir endurheimtir forystuna fyrir íslenska liðið. Góðar fréttir af stelpunum okkar.

51. mínúta: Úkraína jafnar, 2-2. Tetyana Chorna skorar beint úr aukaspyrnu sem dæmd er við eitt vítateigshornið.

46. mínúta: Síðari hálfleikur hafinn í Úkraínu.

Fyrri hálfleik lokið: Ísland byrjaði frábærlega í leiknum og skoraði tvö mikilvæg útivallarmörk. Þó svo að Úkraína hafi minnkað muninn er útlitið enn mjög gott.

39. mínúta: 2-1 fyrir Ísland. Úkraína minnkar muninn en það gerði Tetyana Romanenko. Hún renndi boltanum fram hjá Þóru í marki Íslands.

36. mínúta: Margrét Lára komst í gegn en skot hennar fór yfir mark Úkraínumanna.

30. mínúta: Margrét Lára í dauðafæri fyrir íslenska liðið en ekki kom þriðja markið.

25. mínúta: 2-0 fyrir Ísland. Þetta gengur frábærlega. Hólmfríður Magnúsdóttir hefur aukið forystu Íslands í leiknum.

5. mínúta: 1-0! Staðan er orðin 1-0, Íslandi í vil. Katrín Ómarsdóttir skoraði mark Íslands.

1. mínúta: Þá er leikurinn hafinn í Úkraínu. Margrét Lára dæmd rangstæð strax í upphafi leiks.

Fyrir leik: Facebook-síða KSÍ segir frá því að þær Dagný Brynjarsdóttir og Katrín Ómarsdóttir hafi verið nokkuð slappar í morgun en að báðar verði samt á skýrslu í dag. Dagný er á bekknum.

Fyrir leik: Byrjunarlið Íslands er þannig skipað: Þóra Björg - Dóra María, Sif, Katrín J., Hallbera - Edda, Sara Björk, Katrín Ó - Hólmfríður, Margrét Lára, Fanndís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×