Enski boltinn

West Ham upp fyrir Arsenal eftir sigur á Queens Park Rangers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Winston Reid steinrotaðist í kvöld.
Winston Reid steinrotaðist í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nýliðar West Ham eru komnir upp í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-1 útisigur á botnliði Queens Park Rangers í lokaleik sjöttu umferðarinnar á Loftus Road í kvöld. Lærisveinar Sam Allardyce í West Ham hafa nú fengið 11 stig út úr fyrstu sex leikjum sínum eða tveimur stigum meira en Arsenal sem datt fyrir vikið niður í áttunda sætið.

West Ham fékk draumabyrjun þegar Matthew Jarvis skoraði strax á 3. mínútu en markið skoraði hann með skalla af stuttu færi eftir sendingu frá Kevin Nolan. Ricardo Vaz Te bætti við öðru marki á 35. mínútu eftir fyrirgjöf frá James Tomkins. Júlio César, markvörður Queens Park Rangers, leit ekki alltof vel út í báðum þessum mörkum.

Winston Reid, leikmaður West Ham, fékk slæmt höfuðhögg á 21. mínútu og þurfti í kjölfarið að yfirgefa völlinn en hann lenti þarna á markverði sínum Jussi Jääskelainen. Jääskelainen átti stórleik í marki West Ham í þessum leik.

Adel Taarabt kom inn á sem varamaður á 56. mínútu og var búinn að minnka muninn í 2-1 aðeins 84 sekúndum síðar með frábæru skoti. Samba Diakité kom inn á sama tíma og Taarabt en uppskera hans var allt önnur. Diakité varð að yfirgefa völlinn á 75. mínútu eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald.

Queens Park Rangers lék því manni færri síðustu 15 mínútur leiksins og varð að sætta sig við tap á heimavelli. Lærisveinar Mark Hughes sitja því á botni deildarinnar enda aðeins búnir að fá tvö stig út úr fyrstu sex leikjum sínum á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×