Enski boltinn

Van Persie vill leggja upp fleiri mörk

Hollendingurinn Robin van Persie hélt áfram að slá í gegn með Man. Utd í gær þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 útisigri á rúmenska liðinu Cluj í Meistaradeildinni.

"Ég er á fínu skriði en vil gera enn betur. Ég væri til í að leggja fleiri mörk upp. Þetta snýst nefnilega ekki bara um að skora," sagði Van Persie sem er búinn að skora sjö mörk í sjö leikjum fyrir félagið.

Leikurinn í gær var fyrsti leikurinn þar sem Van Persie og Wayne Rooney eru saman í byrjunarliðinu. Samstarf þeirra var gott því Rooney lagði upp bæði mörk Hollendingsins.

"Allt byrjar með góðri sendingu og það gefa ekki allir sendingar eins og Rooney. Við vorum ánægðir með að spila loksins saman en allt liðið var frábært í þessum leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×