Enski boltinn

Frábær endurkoma hjá Arsenal

Walcott fagnar marki sínu í leiknum.
Walcott fagnar marki sínu í leiknum.
Arsenal komst upp í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld er liðið vann sterkan útisigur, 1-3, á nágrönnum sínum í West Ham.

Það voru samt heimamenn sem byrjuðu leikinn betur því Mohamed Diame skoraði gull af marki um miðjan fyrri hálfleik. Sólaði leikmenn Arsenal upp úr skónum og klíndi boltanum síðan í skeytin fjær.

Þau undur og stórmerki gerðust síðan skömmu fyrir hlé að Frakkinn Olivier Giroud skoraði fyrir Arsenal. Hans fyrsta mark fyrir félagið og líklega þungu fargi létt af honum.

Giroud lagði svo upp annað mark Arsenal fyrir Walcott. Stunga í teiginn og Walcott kláraði færið með stæl.

Það var svo Spánverjinn Santi Cazorla sem bauð upp á lokaatriði kvöldsins er hann smellti boltanum af afli upp í markhornið með glæsilegu skoti utan teigs.

Enginn leikmaður í stóru deildunum í Evrópu hefur skorað jafn mörg mörk og hann utan teigs undanfarið ár. Mörkin eru orðin níu hjá honum með þrumufleygum á einu ári.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×