Enski boltinn

Björn Bergmann byrjar gegn Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Björn Bergmann Sigurðarson verður í byrjunarliði Wolves sem mætir Chelsea í ensku deildabikarkeppninni í kvöld. Ståle Solbakken, stjóri Wolves, ætlar að gera margar breytingar á byrjunarliði sínu.

Solbakken sagði við staðarblaðið Express & Star í gær að hann ætlaði að gera 9-10 breytingar á byrjunarliði sínu frá síðasta leik. Wolves vann þá 2-0 sigur á Peterborough en Björn Bergmann skoraði annað marka liðsins eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Þjálfarinn segir þetta nauðsynlegt vegna leikjaálags. „Það væri kjánalegt að láta leikmenn spila fjóra leiki á níu dögum. Sumir spiluðu þrjá leiki á sex dögum og þurfa núna hvíld til þess að takast á við aðra eins törn sem er handan við hornið."

Björn Bergmann hefur verið frá vegna meiðsla en er allur að koma til. Hann fær sæti í byrjunarliðinu í kvöld vegna þess að hann hefur spilað minna en sóknarmennirnir Kevin Doyle og Sylvan Ebanks-Blake.

„Það er mjög lítill munur á þessum þremur sóknarmönnum. Björn mun keppa við þá um stöðu í byrjunarliðinu nú þegar hann er laus við meiðslin."

Chelsea er taplaust á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en Wolves er í sjötta sæti ensku B-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×