Enski boltinn

Lescott ætlar að berjast fyrir nýjum samningi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Joleon Lescott, varnarmaður Manchester City, segir að það hafi verið sárt að sitja á bekknum þegar að City mætti Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku.

Matija Nastasic var heldur óvænt í byrjunarliðinu og lék við hlið Vicent Kompany í hjarta varnarinnar gegn Real Madrid. Lescott var svo aftur kominn í byrjunarlið City gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

„Það var vissulega sárt en stjórinn velur liðið og ég var ekki í því að þessu sinni," sagði Lescott í samtali við enska fjölmiðla. „Það hefði verið frábært að spila á þessum fræga leikvangi gegn mörgum bestu leikmanna heims."

„En svona lagað hefur gerst áður og ég ætla að halda áfram að leggja mikla vinnu á mig. Ég er tilbúinn í slaginn," sagði hann.

Lescott á tæp tvö ár eftir af núverandi samningi sínum við City en hann er 30 ára gamall. „Ég væri tilbúinn til þess að framlengja samninginn og klára ferilinn minn hér. En ég ætla ekki að ganga á eftir nýjum samningi heldur gera einfaldlega mitt besta og haga mér fagmannlega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×