Enski boltinn

Mancini: Sumir stjórar eiga bara að þegja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mancini og Lambert skiptast á orðum í gær.
Mancini og Lambert skiptast á orðum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, er orðinn þreyttur á framkomu sumra knattspyrnustjóra en honum lenti saman við Paul Lambert, stjóra Aston Villa, í leik liðanna í enska deildabikarnum í gær.

Aston Villa vann leikinn, 4-2, eftir framlengingu. Stjórarnir rifust á hliðarlínunni eftir að Mancini kvartaði undan tæklingu Joe Bennet á Gareth Barry við fjórða dómara leiksins.

„Ég er orðinn þreyttur á þessum stjórum,“ sagði Mancini eftir leikinn í gær. „Ég sagði ekkert við Lambert. Sumir stjórar eiga bara að þegja.“

„Ég spurði bara fjórða dómarann hvort að þetta verðskuldaði áminningu. Svo kom hann [Lampbert] til mín en ég var ekki að tala við hann. Ég spurði fjórða dómarann hvort þetta verðskuldaði ekki gult spjald því ég hélt að dómarinn hefði gleymt spjöldunum sínum inn í klefanum.“

„Stundum fara þessir stjórar á stóra leikvanga og segja þá ekki neitt, þó svo að hinn stjórinn láti mikið heyra í sér. Þegar þeir fara á Old Trafford þá heyrist ekkert í þeim. Þegar aðrir stjórar tala við dómarann þá sitja þeir á bekknum. Mér líkar ekki við svona framkomu.“

Lambert vildi sjálfur gera lítið úr þessu. „Það er allt gott og blessað ef hann sagði þetta. Ég ber virðingu fyrir honum sem stjóra og fyrrverandi leikmanni. Þetta var í raun ekki neitt sem kom upp á milli okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×