Enski boltinn

Ferdinand bara að hugsa um United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Rio Ferdinand hefur verið nokkuð sterklega orðaður við endurkomu í enska landsliðið nú þegar að John Terry er hættur að gefa kost á sér. Ferdinand vildi lítið tjá sig um landsliðið í samtali við enska fjölmiðla.

„Einstaklingsafrek hafa lítið að segja þegar maður er að vinna leiki á stöðum eins og Anfield," sagði Ferdinand sem var í liði United gegn Liverpool um helgina. United vann leikinn, 2-1.

„Ég vil bara fá að spila reglulega með mínu liði og það hef ég alltaf sagt. Það gengur vel hjá mér þessa stundina og er ég því ánægður," bætti hann við.

Ferdinand var ekki valinn í EM-hóp Englands í sumar og hefur hann ekki spilað með landsliðinu síðan á síðasta ári. Hann er bróðir Anton Ferdinand sem hefur sakað John Terry um kynþáttaníð í sinn garð. Terry þarf nú að svara fyrir þær sakir vegna rannsóknar enska knattspyrnusambandsins og hætti hann að gefa kost á sér í landsliðið af þeim ástæðum.

Ferdinand hefur áður verið sagður reiðubúinn að spila með enska landsliðinu á ný en það hefur hann ekki sjálfur sagt berum orðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×