Enski boltinn

Wenger lofar vinnusemi Arshavin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger segir að Andrey Arshavin sé fórnarlamb miklar samkeppni um stöður í byrjunarliði Arsenal en rússneski landsliðsfyrirliðinn verður líklega í byrjunarliði ARsenal gegn Coventry í enska deildabikarnum í kvöld.

Arshavin hefur aðeins komið við sögu í einum leik í deildinni til þessa á tímabilinu en það gerði hann í markalausu jafntefli gegn Sunderland í fyrstu umferðinni.

Wenger segir það eðlilegt að leikmenn séu ekki ánægðir með að fá að spila. „Ég ber mikla virðingu fyrir Andrey Arshavin því stundum berast sögur af því að honum sé alveg sama um svona lagað - sem er fjarri lagi," sagði Wenger.

„Hann leggur sig 200 prósent fram á hverjum einasta degi. Eins og er ríkir mikil og hörð samkeppni um stöður í byrjunarliðinu en allir bera mikla virðingu fyrir Andrey, sérstaklega starfsmenn og þjálfarar."

„Ég skynja það vel að hann sé óánægður og því finnst mér gott að geta gefið honum tækifæri til að spila gegn Coventry."

Wenger segir það vel mögulegt að ungir leikmenn muni fá tækifæri í leiknum. „Hector Bellerin, Kris Olsson, Serge Gnabry, Nico Yennaris og Craig Eastmond gætu allir spilað í leiknum," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×