Enski boltinn

Carragher og Henderson fá líklega tækifæri í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Liverpool mætir í kvöld West Brom í enska deildabikarnum og er búist við því að Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, muni nota leikmenn sem hafa lítið fengið að spila á tímabilinu til þessa.

Í þeim hópi eru þeir Jamie Carragher og Jordan Henderson en Rodgers lofaði þá báða í samtali við heimasíðu félagsins.

„Ungir leikmenn verða að fá tækifæri til að læra af leikmönnum eins og Jamie Carragher, sem býr yfir mikilli reynslu og leiðtogahæfileikum. Þjálfarar geta kennt ungum leikmönnum ýmislegt en þegar út í leikinn er komið geta þeir lært mikið af því að spila með reynslumiklum leikmönnum."

Henderson virðist vera nokkuð aftarlega í goggunarröðinni hjá Rodgers sem hefur frekar kosið að nota leikmenn eins og Joe Allen og Jonjo Shelvey. „En Jordan er mjög duglegur. Hann vill ólmur læra og bæta sig, lifir reglusömu lífi og kemur sér ekki í vandræði utan vallarins," sagði Rodgers.

„Hann hefur ekki fengið að spila jafn mikið og hann hefði kosið sjálfur en hann fær tækifæri á hverjum degi - ekki bara í leikjum - til að sýna að hann eigi heima í þessu liði."

Liverpool fær í kvöld tækifæri til að hefna fyrir 3-0 tap fyrir West Brom í deildinni í upphafi tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×