Enski boltinn

O'Neill um Cattermole: Rauða spjaldið afar heimskulegt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuart Atwell rekur Cattermole af velli.
Stuart Atwell rekur Cattermole af velli. Nordic Photos / Getty Images
Martin O'Neill, stjóri Sunderland, var mjög óhress með fyrirliðann sinn eftir að Lee Cattermole fékk beint rautt spjald í leik gegn MK Dons í gær.

Sunderland vann leikinn, 2-0, og tryggði sér þar með sæti í fjórðu umferð ensku deildabikarkeppninnar.

Cattermole var þó rekinn af velli strax á 31. mínútu fyrir tveggja fóta tæklingu. O'Neill var óhræddur við að gagnrýna leikmanninn í viðtölum við fjölmiðla eftir leik.

„Þetta var heimskulegt og algerlega tilgangslaust," sagði hann. „Dómarinn átti ekki annarra kosta völ. Þetta var sjöunda rauða spjaldið hans á ferlinum og er útlit fyrir að þeim muni fjölga enn áður en hann verður þrítugur."

„Hann þarf að skoða sín mál og þetta er sérstaklega slæmt því hann er fyriliði liðsins. Ég tel ekki að það sé komið að ögurstundu á hans ferli eða neitt slíkt en hann þarf að koma sínum agamálum í betra horf."

Cattermole mun missa af grannaslag Sunderland gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni og einnig leikjum gegn Wigan og Manchester City ef hann fær þriggja leikja bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×