Enski boltinn

Rodgers ánægður með ungu leikmennina | Sinclair sá yngsti frá upphafi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, segir að hæfileikar skipti meira máli en aldur leikmanna. Það sýndi sig í gær þegar hann gaf Jerome Sinclair tækifæri í 2-1 sigrinum á West Brom í gær.

Sinclair hélt upp á sextán ára afmæli sitt fyrir einni viku síðan og varð hann í gær yngsti leikmaður félagsins frá upphafi er hann kom inn á sem varamaður í gær. Sinclair kom einmitt til Liverpool frá West Brom fyrir tveimur árum síðan.

„Ég óska Jerome Sinclair til hamingju. Framtíð okkar er björt með þessa ungu leikmenn," sagði Rodgers eftir leikinn í gær. „Við höfum sífellt verið að bæta leikstíl okkar."

Sinclair bætti í gær met Jack Robinson sem var 16 ára og 250 dögum betur þegar hann kom við sögu í leik með Liverpool vorið 2010. Robinson var með í gær, sem og táningarnir Andre Wisdom, Samed Yesil og Suso. Hinn sautján ára Raheem Sterling var á bekknum en hann hefur verið fastamaður í liði Liverpool á tímabilinu.

„Það var frábært að sjá svona mörg börn (e. babies) á vellinum. Það var meiriháttar," sagði Rodgers. „Ef þessir strákar hafa hæfileika, skapgerð, sjálfstraust og hugrekki til að spila þá skiptir aldurinn engu máli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×