Enski boltinn

Wenger: Við söknum ekki Drogba

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Drogba í leik gegn Arsenal.
Drogba í leik gegn Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er feginn því að Didier Drogba sé ekki lengur leikmaður Chelsea en liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni nú um helgina.

Þetta varður í fyrsta sinn í átta ár sem lærisveinar Wenger mæta Chelsea án Drogba. Þeim síðarnefnda gekk oftast vel gegn Arsenal og skoraði alls þrettán mörk gegn félaginu. Aðeins einu sinni tapaði Chelsea fyrir Arsenal þegar Drogba kom við sögu.

„Ég veit ekki hvort að Chelsea sakni hans en við gerum það svo sannarlega ekki," sagði Wenger. „Hann reyndist okkur mjög erfiður."

Jack Wilshere og Bacary Sagna eru báðir byrjaðir að æfa með Arsenal á ný en hvorugur mun þó spila með gegn Chelsea. „Jack mun spila með U-21 liðinu á mánudaginn og þurfum við að sýna honum þolinmæði. Sagna mun ekki spila en Thomas Vermaelen er gjaldgengur. Það eru svo tvær vikur í Rosicky og 2-3 vikur í Szczesny."

Bæði lið eru enn taplaus eftir fyrstu fimm umferðir tímabilsins. Chelsea er á toppnum með þrettán stig en Arsenal í fimmta sæti með níu stig. Leikurinn hefst klukkan 11.45 á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×