Enski boltinn

Neymar ekki búinn að semja við Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Forseti brasilíska knattspyrnufélagsins Santos hefur tekið fyrir þær sögusagnir að sóknarmaðurinn Neymar sé þegar búinn að semja við Barcelona.

Neymar er tvítugur og hefur lengi verið orðaður við sterkustu lið Evrópu, allra helst Barcelona. Í vikunni fór orðrómur á kreik um að Barcelona væri þegar byrjað að greiða Santos fyrir Neymar en Luis Albaro de Oliveira Ribeiro, forseti síðarnefnda félagsins, segir það rangt.

„Neymar er ánægður. Hann er að spila vel og það sem er enn mikilvægara þá þénar hann vel hér. Við skulum sjá til hvort hann verði áfram hér fram yfir 2014," sagði hann en þá rennur núverandi samningur hans út.

„Santos þarf ekki að selja leikmenn. Tekjur okkar eru ekki háðar því. Santos er félag sem ætlar sér að vinna titla og Neymar er leikmaður sem getur hjálpað til við það."

„Það má svo ekki gleyma því að fjárhagur evrópskra félaga er slæmur. Ef ekki væri fyrir Rússana og Arabana þá væri staða þeirra enn verri. Aðeins þýsk félög búa við fjárhagslegan stöðugleika."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×