Enski boltinn

Eiður sagður á leið til Cercle Brugge

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samkvæmt belgískum fjölmiðlum mun Eiður Smári Guðjohnsen vera nálægt því að ganga í raðir Cercle Brugge, liði Arnars Þórs Viðarssonar. Hann mun samkvæmt fregnum gangast undir læknisskoðun í dag.

Eiður Smári hefur verið án félags síðan í sumar en hann var síðast á mála hjá AEK Aþenu í Grikklandi. Þar var hann í eitt tímabil en gat lítið spilað þar sem hann fótbrotnaði í leik með liðinu.

Hann æfði með bandaríska liðinu Seattle Sounders fyrr í mánuðinum en samningar náðust ekki á milli aðila. Samkvæmt fjölmiðlum í Belgíu eru viðræður komnar langt en þó á eftir að ganga frá endanlegu samkomulagi um kaup og kjör.

Eiður þekkir vel til í Belgíu enda lék faðir hans, Arnór, lengi með Anderlecht. Eiður hóf svo atvinnumannaferil sinn með PSV í Hollandi.

Cercle Brugge hefur byrjað tímabilið skelfilega í Belgíu og er liðið í neðsta sæti deildarinnar með aðeins eitt stig eftir jafntefli í fyrstu umferðinni. Síðan hefur liðið tapað sjö leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×