Enski boltinn

Mancini: Við verðum aftur meistarar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini er ekki efins um að hans menn í Manchester City verði aftur Englandsmeistarar í vor, þrátt fyrir misjafnt gengi í upphafi tímabilsins.

City hefur ekki unnið sigur í síðustu fjórum leikjum sínum í öllum keppnum og er það í fyrsta sinn sem það gerist síðan að Mancini tók við liðinu. Liðið er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa unnið tvo af fyrstu fimm leikjum sínum á tímabilinu.

„Það er erfiðara að vinna tvö ár í röð en við munum vinna titilinn," sagði Mancini við enska fjölmiðla. „Stundum er ekki hjá því komist að spila illa eða þá að hitt liðið spilar betur en þú. Óheppni getur líka skipt máli en það þýðir samt ekkert annað en að halda áfram sínu striki."

City hefur ekki enn haldið hreinu á tímabilinu til þessa en Mancini skrifar það á bæði EM í sumar sem og að félagið keypti tvo nýja varnarmenn til liðsins seint í sumar.

„Undirbúningstímabilið var erfitt og við vorum þá ekki með alla okkar varnarmenn. En við erum ekki í mikið verri stöðu en í fyrra en á sama tíma þá höfðum við aðeins fengið tveimur færri mörkum á okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×