Enski boltinn

Gylfi söng Stand By Me í Tottenham-vígslunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson er í ítarlegu viðtalið hjá Henry Winter, blaðamanni Daily Telegraph, sem birt er í dag. Þar segir hann frá fyrstu vikunum sínum sem leikmaður Tottenham.

Gylfi fór í gegnum sérstaklega vígslu eins og aðrir nýir leikmenn Tottenham í æfingaferð liðsins í Bandaríkjunum í sumar.

„Ég þurfti að standa á stól og syngja fyrir alla strákana. Ég söng Stand By Me. Þetta var frekar vandræðalegt fyrir mig enda ekki besti söngvarinn í heimi. En strákarnir sögðu að þetta hafi verið í góðu lagi hjá mér," sagði Gylfi.

„Við Íslendingar eigum Björk og Sigur Rós en ég er ekki söngvari," bætti hann við.

Gylfi segir í viðtalinu að hann hafi ávallt litið upp til Eiðs Smára Guðjohnsen og Frank Lampard. En ekki Guðna Bergssonar, sem spilaði með Tottenham á sínum tíma.

„Guðni var miðvörður og því leit ég ekkert sérstaklega upp til hans," sagði Gylfi og hló. „Ég ber mikla virðingu fyrir því sem hann gerði á sínum ferli. Hann er lögfræðingur og mjög klár."

Gylfi segir einnig frá fjölskyldu sinni og þeim knattspyrnustjórum sem hann hefur unnið með í gegnum tíðina, meðal annars. Gylfi og félagar hans mæta Manchester United á Old Trafford klukkan 16.30 í dag en viðtalið má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×