Enski boltinn

City tapaði stigum gegn Stoke

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Crouch kemur Stoke á bragðið.
Crouch kemur Stoke á bragðið. Nordicphotos/Getty
Liðsmenn Manchester City urðu að sætta sig við eitt stig í heimasókn liðsins til Stoke í dag. Javier Garcia opnaði markareikning sinn fyrir City í leiknum.

Gestirnir frá Manchester voru sterkari aðilinn í leiknum og líklegri til þess að taka stigin þrjú. Það voru hins vegar heimamenn sem náðu forystunni eftir tæpan stundarfjórðung.

Hinn hávaxni framherji liðsins, Peter Crouch, tók þá boltann niður í teig City. Á óskiljanlegan hátt komst hann framhjá varnarmönnum City þar til hann stóð einn andspænis Joe Hart og kláraði færið vel. Gestirnir vildu fá dæmda hendi á Crouch og höfðu vafalítið eitthvað til síns máls.

Englandsmeistararnir héldu áfram sókn sinni og jöfnuðu metin á 35. mínútu. Javier Garcia skallaði þá knöttinn í netið eftir aukaspyrnu og staðan 1-1 í hálfleik.

City hélt boltanum stærstan hluta síðari hálfleiks en gekk erfiðlega að skapa sér opin færi. Garcia var hársbreidd frá því að skora sigurmarkið í viðbótartíma. Begovic varði skalla Spánverjans með tilþrifum.

Þá bjargaði Ryan Shawcross skoti Edin Dzeko á línu undir lokin þegar Bosníumaðurinn slapp einn í gegn.

Manchester City hefur átta stig í 4. sæti deildarinnar en liðið er enn ósigrað. Stoke heldur uppteknum hætti en liðið hefur gert jafntefli í öllum leikjum sínum og er um miðja deild með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×