Enski boltinn

Wenger: Stórt próf á sunnudaginn kemur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að það komi betur ljós um næstu helgi hvort að Arsenal-liðið hafi burði til að berjast um enska meistaratitilinn. Arsenal vann 6-1 stórsigur á Southampton um helgina en mætir Englandsmeisturum Manchester City um næstu helgi.

„Við vitum það betur eftir tíu daga," sagði Arsene Wenger aðspurður um möguleika Arsenal á að vinna enska meistaratitilinn næsta vor. „Ég tel að við eigum möguleika en þetta er spurning um hvort okkur takist að þróa okkar leik og halda rétta hugarfarinu," sagði Wenger.

„Við eigum möguleika en það er erfitt að meta þetta núna því við vitum ekki hversu sterkir aðalkeppninautar okkar eru. Við höfum nefnilega ekki enn mætt þeim liðum sem verða í titilbaráttunni," sagði Wenger.

„Við urðum meistarar 2004 og þegar við mættum Chelsea í nóvember á næsta tímabili á eftir þá hugsaði ég í leikslok: Við vorum að spila á móti verðandi meisturum," rifjaði Wenger upp.

„Það verður áhugavert að sjá hvernig okkur gengur á móti bestu liðunum. Við förum í stórt próf á sunnudaginn kemur en það mikilvægasta hjá okkur núna er að halda stöðugleika og spila áfram eins vel og við gerðum á móti Southampton," sagði Wenger.

Það er hægt að sjá svipmyndir úr leik Arsenal og Southampton með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×