Enski boltinn

Jose Enrique: Santi Cazorla er einn af þeim bestu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Santi Cazorla.
Santi Cazorla. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jose Enrique, spænski varnarmaðurinn hjá Liverpool, hefur mikla trú á landa sínum Santi Cazorla sem kom til Arsenal fyrir þetta tímabil. Liverpool og Arsenal mætast í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og hefst leikurinn klukkan 12.30 á Anfield í Liverpool.

Jose Enrique man vel eftir Santi Cazorla frá viðureignum þeirra í spænsku úrvalsdeildinni á árum áður en spænski miðjumaðurinn hefur vakið mikla athygli í fyrstu leikjum sínum í enska boltanum.

„Santi Cazorla er frábær leikmaður og einn af þeim bestu," sagði Jose Enrique í viðtali á heimasíðu Liverpool. „Arsenal er með magnað lið. Þeir hafa selt nokkra leikmenn eins og Robin van Persie í ár og Samir Nasri í fyrra en þeir finna alltaf nýja menn og halda sér meðal efstu fjögurra," sagði Jose Enrique.

„Við erum bara með eitt stig í deildinni eins og er en Real Madrid hefur byrjað eins og við og það er ekkert að marka þetta ennþá. Ef við náum að vinna þennan leik þá verður það jákvæð skilaboð til allra. Fjögur stig í þremur leikjum, öll á móti Manchester City og Arsenal, er í góðu lagi mín vegna," sagði Jose Enrique.

Liverpool hefur oftast spilað vel á móti stóru liðunum á Anfield og Jose Enrique vonast til þess að liðið haldi uppteknum hætti í dag.

„Ég held að við spilum betur á móti bestu liðunum. Við erum að spila á Anfield sem er gott og ef við spilum eins vel og á móti Manchester City þá getum við unnið Arsenal," sagði Jose Enrique.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×