Fótbolti

Sundhage hættir með bandaríska landsliðið og tekur við því sænska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pia Sundhage.
Pia Sundhage. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pia Sundhage er hætt með bandaríska kvennalandsliðið í fótbolta og mun að öllum líkindum gerast þjálfari sænska kvennalandsliðsins. Sundhage er búin að þjálfa bandaríska liðið í fimm ár og endaði með því að gera þær bandarísku að Ólympíumeisturum í London.

Pia Sundhage tók við bandaríska liðinu í nóvember 2007 og undir hennar stjórn unnu bandarísku stelpurnar gull á ÓL 2008 og ÓL 2012 sem og silfur á HM 2011. Bandaríska liðið vann 88 af 204 leikjum undir hennar stjórn.

„Við ræddum við hana eftir Ólympíuleikana og þá kom fljótlega í ljós að hún vildi fara heim til Svíþjóðar," sagði Sunil Gulati, forseti bandaríska knattspyrnusambandsins í fréttatilkynningu.

„Það var mikill heiður að fá að þjálfa þessa leikmenn í þessi fimm ár og ég hef lært mikið af þeim. Ég vil þakka þeim sem og aðstoðarfólki mínu fyrir þennan tíma því þau öll hafa gert mig að betri þjálfara," sagði Pia Sundhage.

Thomas Dennerby, þjálfari sænska landsliðsins í fótbolta, hætti með sænska liðið á dögunum eftir sjö ár og sænskir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að Sundhage taki við sænska landsliðinu af Dennerby.

Svíar verða á heimavelli á Evrópumótinu næsta sumar og það lítur allt út fyrir það að þar muni Pia Sundhage stýra liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×