Fótbolti

Bendtner valdi sér ólukkunúmerið hjá Juventus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicklas Bendtner og Arsene Wenger.
Nicklas Bendtner og Arsene Wenger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nicklas Bendtner er loksins búinn að finna sér lið en hann verður í láni hjá ítalska liðinu Juventus í vetur. Bendtner á tvö ár eftir af samningi sínum við Arsenal en á sér enga framtíð hjá Emirates og var búinn að vera að leita sér að liði í allt haust.

Bendtner er nú kominn til ítölsku meistaranna í Juventus og gæti spilað sinn fyrsta leik í dag þegar liðið heimsækir Udinese í ítölsku úrvalsdeildinni.

Það vakti mikla athygli hjá ítölsku pressunni að danski framherjinn ákvað að velja sér númerið 17 á búninginn sinn en sautján er ólukkunúmer á Ítalíu.

Ekki er ljóst hvort Bendtner sé að storka örlögunum eða hvort að hann vilji spila í sama númeri og Frakkinn David Trezeguet sem skoraði 135 mörk í 245 leikjum í þessu númeri með Juve á árunum 1999 til 2010.

Það gekk vel hjá Trezeguet að storka örlögunum á Ítalíu og nú er að sjá hvernig gengur hjá danska landsliðsmanninum. Þetta er annað tímabilið í röð sem Bendtner fer á láni en hann var með 8 mörk í 29 leikjum með Sunderland á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×