Enski boltinn

John Henry: Við vorum ekki að skera niður kostnað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Henry ræðir við Ian Rush.
John Henry ræðir við Ian Rush. Nordic Photos / Getty Images
John Henry hefur ritað stuðningsmönnum Liverpool opið bréf sem birtist á heimasíðu félagsins nú í morgun.

Liverpool er í fallsæti eftir fyrstu þrjár umferðir tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni en liðið er aðeins með eitt stig. Liðið tapaði fyrir Arsenal um helgina, 2-0.

Enn fremur mistókst Liverpool að kaupa leikmann á lokadegi félagaskiptagluggans eins og Brendan Rodgers, stjóri liðsins, hafði stefnt að. Það var fyrst og fremst umfjöllunarefni bréfsins sem John Henry ritaði.

„Það eru mér, eins og öllum öðrum sem tengjast félaginu, mikil vonbrigði að okkur hafi ekki tekist að bæta við sóknarkraft liðsins í félagaskiptaglugganum í sumar," skrifaði hann. „En það ekki vegna áhuga- eða dugleysis þeirra sem störfuðu að því. Á síðustu dögum gluggans reyndu þeir að fá nokkra framherja til liðsins og er það óheppilegt að það hafi ekki tekist."

Henry segir þó að það megi ekki gleyma því að félagið hafi fengið bæði góða leikmenn, sem og unga og efnilega, til liðs við sig í sumar og að það hafi ekki misst neinn af sínum bestu leikmönnum.

„Okkar stefna í leikmannamálum í sumar snerist ekki um að skera niður kostnað. Við viljum fá sem allra mest úr þeim fjármunum sem við eyðum til að auka dýpt og gæði í leikmannahópnum. Þannig verður það áfram í framtíðinni."

Henry segir mikilvægt að hafa í huga að Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, muni á næstunni innleiða reglur sem takmarka eyðslu knattspyrnufélaga við tekjur þeirra svo félög geti ekki eytt um efni fram. Henry segist mikill stuðningsmaður þess.

„Sá peningur sem við öflum eftir því sem við horfum fram á veginn mun gera það að verkum að við höfum betri tök á að kaupa leikmenn í framtíðinni."

„Það samræmist ekki okkar metnaði að festa okkur í sessi sem miðlungslið í ensku úrvalsdeildinni með dýrum skammtímalausnum. Við munum leggja áherslu á að ala upp eigin leikmenn enda hefur mikil orka og fjárfesting farið í þá vinnu."

Henry segir að núverandi eigendur séu enn að lagfæra mistök fyrri eiganda en að þeir sjálfir hafi einnig gert mistök á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan þeir tóku við.

„Við ætlum að vinna og við ætlum að fjárfesta með það fyrir augum að ná árangri. En við ætlum ekki að veðsetja framtíðina okkar með áhættusömum fjárfestingum."

Henry leggur áherslu á að það sé ekki takmark þeirra að græða á félaginu. Og hann lýkur bréfinu á því loforði að þeir ætli sér að skila því til stuðningsmanna það sem þeir þrá allra helst.

Smelltu hér til að lesa bréfið í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×