Enski boltinn

ESPN: Liverpool ætlar að ræða við Owen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt heimildum fréttavefs ESPN ætlar Liverpool að ræða við Michael Owen í dag um að ganga til liðs við félagið.

Owen er án félags en hann var síðast á mála hjá Manchester United. Liverpool tókst ekki að fá sóknarmann til félagsins á lokadegi félagaskiptagluggans eins og stefnt var að, sérstaklega eftir að Andy Carroll var lánaður til West Ham.

Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, viðurkenndi eftir 2-0 tap Liverpool fyrir Arsenal í gær að hann væri að íhuga að semja við Owen sem hefur einnig verið orðaður við Sunderland, West Ham, Everton og Stoke.

Owen hóf ferilinn hjá Liverpool og var einn dáðasti leikmaður félagsins áður en hann fór á sínu tíma. Hann hefur verið hjá erkifjendunum í United í þrjú ár og yrði það sannarlega umdeilt ef hann myndi koma aftur í Liverpool nú.

Leikmaður hefur ekki farið beint frá Manchester United til Liverpool síðan Phil Chisnall gerði það árið 1964. Paul Ince lék með báðum félögum á sínum tíma en fór fyrst frá United til Inter á Ítalíu áður en hann gekk í raðir Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×