Enski boltinn

Ashley Cole meiddur og missir af landsleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ashley Cole, leikmaður Chelsea, hefur dregið sig úr enska landsliðshópnum þar sem hann er að glíma við meiðsli í ökkla.

Cole var tekinn af velli í uppbótartíma þegar að Chelsea mætti Atletico Madrid á föstudagskvöldið en hefur nú snúið aftur til síns félags þar sem hann verður í frekari meðhöndlun vegna meiðslanna sem munu hafa tekið sig upp í leiknum.

England mætir Moldóvu á föstudagskvöldið og svo Úkraínu á þriðjudag í næstu viku. Ekki er útilokað að Cole nái síðari leiknum en það kemur í ljós þegar nær dregur þeim leik.

Andy Carroll, Jack Rodwell og Wayne Rooney hafa einnig dregið sig úr landsliðshópnum vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×