Enski boltinn

Petrov: Erfitt en á réttri leið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Búlgarinn Stiliyan Petrov hefur tjáð sig um veikindi sín í fyrsta sinn síðan greint var frá því að hann væri að hafa betur í baráttu sinni við hvítblæði.

Petrov er fyrirliði Aston Villa og félagið tilkynnti í byrjun ágúst að Petrov hefði brugðist vel við krabbameinsmeðferðinni og að meinið væri á undanhaldi.

„Þetta er fínt núna. En þetta hefur verið erfitt hingað til. Sem betur fer er þetta allt á réttri leið," sagði Petrov í viðtali sem birtist á heimasíðu Villa.

„Það hefur verið mjög vel hugsað um mig á sjúkrahúsinu og er ég þeim afar þakklátur, sem og öllum þeim sem hafa sent mér heillaóskir."

Tveir nuddarar sem starfa hjá Aston Villa hjóluðu á dögunum 650 km til styrktar krabbameinsrannsóknum. Petrov þakkaði þeim hjartanlega fyrir stuðninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×