Enski boltinn

Whittingham stal senunni í Íslendingaslagnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos/Getty
Peter Whittingham skoraði þrennu í 3-1 sigri Cardiff á Wolves í Championship-deildinni í dag.

Heiðar Helguson var eini Íslendingurinn sem hóf leikinn en Aron Einar Gunnarsson var aldrei þessu vant á varamannabekk Cardiff. Aron kom inn á hálftíma fyrir leikslok.

Gestirnir komust yfir á 10. mínútu leiksins en forystan var skammlíf. Whittingham jafnaði úr vítaspyrnu mínútu síðar og bætti við marki á fjórtándu mínútu.

Hann fullkomnaði þrennuna um miðjan síðari hálfleikinn og innsiglaði góðan sigur velska liðsins. Liðið hefur sjö stig að loknum fjórum umferðum og er á meðal efstu liða.

Wolves, sem féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor, er hins vegar með fjögur stig í neðri hlutanum. Eggert Gunnþór Jónsson og Björn Bergmann Gunnlaugsson, sem glímir við meiðsli, voru ekki í leikmannahópi Úlfanna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×