Innlent

Óvenju mörg manndrápsmál í fyrra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá Hótel Frón, þar sem barnið fannst látið.
Frá Hótel Frón, þar sem barnið fannst látið.
Óvenjumörg manndrápsmál, eða alls þrjú, voru til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. Þetta kemur fram í ársskýrslu lögreglunnar sem birt var í gærkvöld. Tímabilið 2007-2010 voru framin samtals fjögur morð í umdæminu og árið í fyrra var því óvenjulegt að þessu leyti. Lögreglan segir þó að varast beri að horfa á sérstaka þróun í þessum efnum og rétt að hafa hugfast að í fyrra fækkaði ofbeldisbrotum á höfuðborgarsvæðinu.

Manndrápsmálin voru jafnframt mjög ólík, að sögn lögreglu. Í einu málinu var gerandinn úrskurðaður ósakhæfur. Sá er karl á þrítugsaldri, en hann var handtekinn við Landspítalann á vormánuðum. Maðurinn ók þangað, gaf sig fram við starfsfólk sjúkrahússins og vísaði á lík barnsmóður sinnar, sem var í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Fólkið hafði áður verið á ferð í Heiðmörk og er talið að maðurinn hafi ráðið konunni þar bana. Hún var um tvítugt.

Í byrjun júlí var lögreglan kölluð til þegar ung kona frá Litháen leitaði aðhlynningar á Landspítalanum vegna blæðinga og kviðverkja. Læknar töldu fullvíst að konan væri nýbúin að fæða barn, en hún þvertók fyrir að hafa verið ófrísk. Í framhaldinu hófst strax rannsókn málsins, en haldið var á vinnustað konunnar, hótel í miðborginni. Þar fannst sveinbarn í ruslagámi. Barnið var látið, en talið er að það hafi fæðst lifandi og konan síðan komið því fyrir í gámnum.

Hálfum mánuði síðar var lögreglan aftur á vettvangi í miðborginni í kjölfar mjög alvarlegrar líkamsárásrar. Þar höfðu orðaskipti tveggja manna á veitingahúsi endað með því að annar stakk hinn í hálsinn með hnífi. Sá sem fyrir árásinni varð, karl á fimmtugsaldri, var fluttur á sjúkrahús með lífshættulega áverka. Hann lést svo af sárum sínum áður en mánuðurinn var úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×