Innlent

Færri rannsóknir með niðurskurði auka hættu á að sýkingar fari leynt

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Nánast bein fylgni er á milli greininga á sýkingum með blóðræktun á smitsjúkdómadeild Landspítalans og niðurskurðar til spítalans. Þetta þýðir að hætt er við því að fjöldi fólks sé með sýkingar án þess að vita af þeim þar sem sýni voru aldrei send í ræktun.

Niðurskurður á framlögum til Landspítalans nemur 25 prósentum á undanförnum fjórum árum. Á þessum tíma hafa stjórnendur og starfsfólk spítalans unnið þrekvirki við að halda þjónustu spítalans viðundandi.

Þessi mikli niðurskurður hefur bitnað verulega á starfi spítalans. Formaður Læknafélagsins sagði í grein í Fréttablaðinu í gær að niðurskurðurinn væri farinn að ógna öryggi sjúklinga.

Eðlilega hefur spítalinn þurft að sníða sér stakk eftir vexti. Eins og Björn Zoega, forstjóri spítalans, sagði í fréttum okkar í gær þá er þjónusta spítalans á eftir hinum Norðurlöndunum. Með öðrum orðum þá erum við Íslendingar eftirbátur þeirra ríkja sem við berum okkur saman við, þegar heilbrigðisþjónusta er annars vegar.

Ein birtingarmynd niðurskurðarins er að rannsóknum með blóðræktun hefur fækkað, en það er þegar tekið er blóð og sent í ræktun. Magnús Gottfreðsson, sérfræðilæknir á smitsjúkdómadeild, segir að mjög sterk fylgni sé milli færri greininga og rannsókna og niðurskurðar.

Magnús segir áhyggjuefni að þessi rannsókn sé gerð 20-25 prósent sjaldnar en hún var gerð áður og greiningum hafi fækkað jafn mikið. Það rímar nánast alveg við niðurskurðinn hjá spítalanum.

Tvær skýringar eru á þessu að mati Magnúsar. Annars vegar að greiningum hafi hreinlega fækkað samhliða niðurskurði eða að sýkingar fari framhjá sérfræðingum spítalans og greinist seint eða aldrei. Sjá viðtal við Magnús í myndskeiði með frétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×