Enski boltinn

Everton vann Swansea 3-0 í Wales og fór upp í 2. sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marouane Fellaini.
Marouane Fellaini. Mynd/Nordic Photos/Getty
Everton-menn sóttu þrjú stig til Wales með því að vinna Swansea 3-0 í hádegisleiknum í ensku úrvalsdeildinni og komust fyrir vikið upp í annað sætið deildarinnar. Leikurinn var afar fjörugur allan tímann og mikil skemmtun fyrir þá sem á horfðu en Swansea lék reyndar manni færri síðustu 32 mínútur leiksins. Á endanum var það hreinlega ótrúlegt að mörkin í þessum leik urðu bara þrjú.

Everton vann tvo fyrstu leiki sína eins og Swansea en bæði liðin voru bara búin að ná í eitt stig út úr síðustu tveimur deildarleikjum sínum. Swansea tapaði þarna öðrum leiknum í röð og fyrsta heimaleiknum á tímabilinu.

Everton byrjaði leikinn í stórsókn og fékk full af færum á fyrstu tuttugu mínútum leiksins. Það var því ekki ósanngjarnt að Everton skoraði fyrsta markið þótt að markið sjálft hafi verið kolólöglegt.

Victor Anichebe kom Everton þá í 1-0 á 22. mínútu með skoti út teignum eftir að Marouane Fellaini hafði tekið boltann niður í teignum og komið honum til hans. Við endursýningu á markinu sást hinsvegar að Fellaini hafði blakað boltanum til Anichebe með hendinni og því átti markið aldrei að vera dæmt gilt.

Belginn Kevin Mirallas bætti síðan við öðru marki Everton tveimur mínútum fyrir hálfleik eftir hraða sókn. Steven Pienaar gaf boltann á Mirallas sem skaut fyrst í slánna en fylgdi svo á eftir með því að skalla boltann inn af marklínunni.

Bakvörðurinn Àngel Rangel fékk tvö algjör dauðafæri til að minnka muninn fyrir hálfleik en Everton-menn sluppu með skrekkinn í bæði skiptin og þar með inn í leikhléið með 2-0 forystu.

Nathan Dyer kom inn á sem varamaður hjá Swansea í hálfleik en entist bara í 13 mínútur eftir að hafa fengið tvö gul spjöld á aðeins þremur mínútum. Swansea-liðið var því manni færri síðustu 32 mínútur leiksins.

Fjörið hélt áfram í seinni hálfleiknum og bæði lið fengu tækifæri til að bæta við mörkum. Marouane Fellaini skoraði að lokum þriðja mark Everton með skalla á 82. mínútu eftir aukaspyrnu frá Leighton Baines. Þannig urðu síðan lokatölurnar í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×