Enski boltinn

Peðin í stjóratafli Abramovich

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Di Matteo.
Roberto Di Matteo. Nordic Photos / Getty Images
Roman Abramovich, eigandi Chelsea, rak í gær Roberto Di Matteo úr stjórastól félagsins, aðeins sex mánuðum eftir að Ítalinn varð fyrsti stjórinn í sögu félagsins til að stýra Chelsea til sigurs í Meistaradeildinni.

Einn martraðarmánuður var nóg fyrir Di Matteo til að missa starfið en eins og sagan sýnir svart á hvítu þá sýnir Rússinn enga miskunn þegar liðið stendur sig ekki inni á fótboltavellinum. Í byrjun október var Chelsea í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 22 stig úr fyrstu átta leikjunum og hafði auk þess náði í 4 stig í fyrstu tveimur leikjunum í Meistaradeildinni.

Nú fjórum vikum og átta leikjum síðar er Roman að leita sér að nýjum stjóra. Chelsea vann bara tvo af síðustu átta leikjum sínum undir stjórn Roberto Di Matteo og endaði á töpum á móti West Brom og á móti Juventus í Meistaradeildinni.

Rússinn Roman Abramovich hefur verið eigandi Chelsea í rúmlega níu ár og á því tímabili hefur félagið verið með átta knattspyrnustjóra. Sá níundi mun síðan taka við starfi Roberto Di Matteo á næstunni.

Di Matteo var sjötti stjórinn sem Roman hefur rekið frá árinu 2004 en auk þess samdi hann um starfslok við Jose Mourinho þegar allt fór upp í háaloft hjá þeim félögum í september 2007. Mourinho á það sameiginlegt með Di Matteo að hafa skilað titlum í hús en í þeim hópi er einnig Carlo Ancelotti, sem gerði Chelsea að tvöföldum meisturum á sínu fyrsta ári. Titlalaust annað tímabilið þýddi hins vegar að hann var rekinn strax eftir lokaleik tímabilsins.

Roberto Di Matteo entist bara 262 daga í stjórastólnum á Brúnni, sem er ekki mjög langur tími, en réð samt ríkjum lengur en þeir Andre Villas-Boas (256 dagar), Avram Grant (247) og Luiz Felipe Scolari (223) í herbúðum Chelsea.

Roman Abramovich er þegar búinn að greiða 37 milljónir punda í bætur til þeirra stjóra sem hann hefur rekið frá Chelsea og þá er ekki meðtalið það sem Di Matteo fær frá honum í starfslokasamningi sínum. Það er talið líklegt að þeir 18 mánuðir sem Ítalinn á eftir af sínum samningi komi þessari upphæð upp í 50 milljónir punda eða yfir 10 milljarða íslenskra króna.

Roman vill árangur og er tilbúinn að borga fyrir hann. Starfsumhverfið verður ekkert manneskjulegra þótt að titlar hafi unnist á þeirra vakt því hausar munu fjúka þegar illa gengur. Flestir hefðu samt talið það tryggja Di Matteo meiri þolinmæði að hafa fært Abramovich Meistaradeildarbikarinn langþráða síðasta vor en miskunnarleysi Rússans kom knattspyrnuheiminum enn á ný á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×