Enski boltinn

Dalglish: Liverpool verður að eyða í leikmenn í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool.
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, hefur verið duglegur að gefa ungum leikmönnum tækifæri að undanförnu en hann segir það ekki breyta því að liðið þurfi að styrkja sig mikið í sumar.

Unglingarnir Martin Kelly, Jay Spearing, John Flanagan og Jack Robinson hafa allir fengið tækifæri í aðalliðinu og staðið sig vel og það er líka von á fleiri ungum leikmönnum eins og hinum sextán ára Rahem Sterling.

Eigendurnir í Fenway Sports Group hafa lagt áherslu á að framtíð félagins liggi í því að finna jafnvægið á milli þess að taka inn uppaldra leikmann og kaupa sterka leikmenn til félagsins. Dalglish er sammála því.

„Það er mikilvægt að hér sér verið að ala upp leikmenn en það er líka mikilvægt að nota það ekki sem afsökun fyrir því að eyða ekki peningum og reyna að bæta við leikmannahópinn sem er þegar fyrir í félaginu," sagði Kenny Dalglish.

„Aldur leikmanna mun aldrei ráða því hvort þeir spila eða ekki en ef við erum sannfærðir um að ungir leikmennirnir séu betri þá munum við nota þá," sagði Dalglish.

„Öll sumur eru mikilvæg fyrir hvert félag. Því meira sem félagið eyðir yfir sumarið því betur gengur á næsta tímabili. Ef félagið gerir góð kaup þá á liðið betri möguleika á því að ná árangri. Þetta verður því mjög mikilvægt sumar og ekki aðeins fyrir Liverpool Football Club. Liverpool verður að eyða fullt af peningum í leikmenn í sumar," segir Dalglish.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×