Gunnar Jarl Jónsson, knattspyrnudómari, mun ekki dæma leik í þriðju umferð Pepsi-deildar karla annað kvöld. Gunnar verður varadómari á leik Vals og ÍBV að Hlíðarenda.
Þetta verður að teljast einkennileg ráðstöfun hjá KSÍ þar sem sex leikir fara fram annað kvöld í Pepsi-deild karla og mikil eftirspurn er eftir góðum dómurum í efstu deild.
Gunnar Jarl hefur verið mikið í umræðunni eftir síðasta leik sem dómarinn dæmdi, en þá fékk hann harða gagnrýni frá þjálfara Keflvíkinga, Willum Þór Þórssyni. Willum var allt annað en sáttur með frammistöðu Gunnars í leiknum og taldi að dómarinn hefði rænt sigrinum frá Keflvíkingum.
KSÍ er hefur líklega stillt upp dómurum fyrir leikina á morgun fyrir einhverjum tíma, en samt sem áður einkennilegt að einn af okkar bestu dómurum dæmi ekki þegar heil umferð fer fram.
Dómarar leikjanna annað kvöld:
Breiðablik – Grindavík - Þóroddur Hjaltalín Jr.
Fylkir – Fram - Magnús Þórisson
Víkingur – KR – Guðmundur Ársæll Guðmundsson
Keflavík – FH – Valgeir Valgeirsson
Þór – Stjarnan – Þorvaldur Árnason
Valur – ÍBV – Kristinn Jakobsson
Gunnar Jarl dæmir ekki annað kvöld
Stefán Árni Pálsson skrifar

Mest lesið


Rannsaka Íslendingafélagið Burton Albion
Enski boltinn







Segist viss um að Isak fari ekki fet
Fótbolti
