Enski boltinn

Enn vandræði hjá Sky - Hoddle baðst afsökunar

Eiríkur Stefán Ásgeirssno skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Stuttu eftir að Sky Sports sjónvarpsstöðin rak þá Richard Keys og Andy Gray fyrir niðrandi ummæli þeirra í garð kvenna hefur nú Glenn Hoddle þurft að biðjast afsökunar á sínum ummælum.

Hoddle var að lýsa leik Fulham og Chelsea í gær og sagði þetta um Feranando Torres, leikmann Chelsea.

„Þegar hlutirnir ganga ekki upp, þá ganga þeir ekki upp. Boltinn fer af bringunni hans, af hnénu og tánni. Næstum eins og hjá kínverska leikmanninum Knee Shin Toe."

Ummælin þykja niðrandi í garð Asíubúa og hefur Hoddle beðist afsökunar á þeim.

„Það eina sem ég get gert er að biðja þá afsökunar sem móðguðust vegna ummælanna," sagði hann í dag.

„Þetta er gamalt orðatiltæki í knattspyrnunni og ég skil af hverju fólki finnst það óviðeigandi í dag."

Hoddle var rekinn sem landsliðsþjálfari Englands árið 1999 fyrir niðrandi ummæli sem hann hafði um fatlað fólk í blaðaviðtali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×