Enski boltinn

Carragher: Voru afar erfiðir átján mánuðir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gerrard og Carragher.
Gerrard og Carragher. Nordic Photos / Getty Images
Jamie Carragher hefur lýst því í samtali við enska fjölmiðla hvernig hann upplifði síðustu átján mánuðina hjá Liverpool áður en að Kenny Dalglish tók við stjórn liðsins í síðasta mánuði.

Það gekk mikið á hjá Liverpool á þeim tíma. Liðið komst ekki í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu, varð í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og Rafael Benitez hætti svo hjá félaginu eftir að síðasta tímabili lauk.

Roy Hodgson tók við starfi hans en liðinu gekk enn verr undir hans stjórn. Þá var einnig skipt um eigendur en ekki batnaði frammistaðan inn á vellinum.

Það var ekki fyrr en að Dalglish tók við að það fór loksins að birta til hjá félaginu og hefur Liverpool verið duglegt að safna stigum í sarpinn að undanförnu og klifra upp töfluna.

„Það hefur verið mjög erfitt að koma aftur heim undanfarna átján mánuði eftir leiki þar sem við stóðum okkur ekki vel," sagði Carragher.

„Þetta hefur verið erfitt fyrir alla - stuðningsmenn, vini og ættingja. Það er bara mjög gott að þessi tími sé að baki og þar sem við höfum verið að standa okkur betur er ekki þessi sama pressa og við þurftum að búa við áður."

„Margir eru byrjaðir að tala um efstu fjögur sætin en ég segi bara að ég er ánægður með að við séum byrjaðir að vinna leiki og getum komið heim með bros á vör - án þess að þurfa áhyggjur af töflunni."

Dalglish náði frábærum árangri með liðið bæði sem leikmaður og knattspyrnustjóri en hann er nú að stýra liðinu í annað sinn á ferlinum.

„Nærvera hans ein og sér styrkir allt félagið, leikmenn og stuðningsmenn þess. Við gerðum jafntefli við Wigan á heimavelli á laugardaginn. Við spiluðum ekkert allt of illa en fyrir fjórum mánuðum hefðu viðbrögðin eftir þann leik verið allt öðruvísi en þau voru í raun."

„Það segir mikið um hvað Kenny hefur gert fyrir okkur og hvernig hann hefur náð stuðningsmönnunum á okkar band. Við þurfum enn að bæta okkar leik en og ég er viss um að stjórinn mun nota sumarið í að gera það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×