Fótbolti

Tíu bestu mörkin á ferli Ronaldo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brasilíumaðurinn Ronaldo Luis Nazario de Lima tilkynnti í gær að hann væri hættur knattspyrniðkun, 34 ára gamall.Óhætt er að fullyrða að Ronaldi sé einn allra besti knattspyrnumaður sem hefur komið fram á sjónarsviðið undanfarna áratugi en hann er í dag markhæsti leikmaðurinn í sögu úrslitakeppni HM með fimmtán mörk talsins.

Alls skoraði hann 62 mörk í 97 landsleikjum og varð heimsmeistari með liðinu 1994 og 2002. Hann spilaði að vísu ekkert með liðinu í fyrra skiptið enda aðeins sautján ára gamall.

Ronaldo er tveimur árum eldri en Eiður Smári Guðjohnsen og saman léku þeir nokkra leiki með PSV Eindhoven, þar sem Ronaldo hóf feril sinn í Evrópu. Alls skoraði hann 42 mörk í 46 leikjum með liðinu áður en hann var seldur til Barcelona árið 1996.

Hann lék aðeins eitt tímabil með Börsungum og skoraði þá 47 mörk í 49 leikjum í öllum keppnum - sannarlega ótrúlegur árangur. Hann varð árið 1996 sá yngsti frá upphafi til að verða valinn knattspyrnumaður ársins af FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu.

Ronaldo varð dýrasti leikmaður heims fyrst þegar hann fór til Barcelona og svo aftur ári síðar þegar Inter keypti hann á nítján milljónir punda.

Hjá Inter var hann í fimm ár uns hann fór til Real Madrid árið 2002. Þar var hann í önnur fimm ár og var svo á mála hjá AC Milan þar til að hann ákvað að snúa aftur til síns heims og leika með Corinthians. Þar náði hann að spila alls 31 leik og skoraði í þeim átján mörk.

Alls urðu leikirnir með félagsliðum 466 talsins á ferlinum og skoraði hann í þeim 326 mörk.

Hann var valinn knattspyrnumaður ársins þrisvar og er sá eini, ásamt Zinedine Zidane, sem hefur afrekað það. Hann hlaut Gullbolta France Football tvívegis.

Eftir dvölina hjá Barcelona byrjuðu meiðsli að setja strik í reikninginn hjá kappanum og sérstaklega lenti hann í miklum vandræðum með hnémeiðsli.

En þegar hann var heill sýndi hann að fáir voru betri fyrir framan mark andstæðingsins. Vefsíðan 101greatgoals.com hefur tekið saman tíu flottustu mörkin sem Ronaldo skoraði á ferlinum. Þau eru í tímaröð en hér efst má sjá þrennuna sem hann skoraði í leik Real Madrid og Manchester United í Meistaradeild Evrópu árið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×