Enski boltinn

Lampard lifir enn í voninni: Þurfum að vinna alla okkar leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard og Didier Drogba.
Frank Lampard og Didier Drogba. Mynd/AP
Chelsea-maðurinn Frank Lampard er ekki búinn að gefa upp alla von um að verja Englandsmeistaratitilinn þrátt fyrir að liðið sé nú þrettán stigum á eftir toppliði Manchester United. Chelsea mætir Fulham á útivelli á morgun og getur þar minnkað forskotið niður í tíu stig.

„Við vitum að við getum komist aftur inn í myndina en það þarf mikið að gerast til þess að það takist. Við verðum að vinna alla leiki okkar og vonast jafnframt til þess að hin liðin misstígi sig," sagði Frank Lampard.

„Við megum samt ekki vera að hugsa of mikið um United. Markmiðið er að setja saman góða sigurgöngu svo að við getum minnkað forskot þeirra eitthvað áður en við mætum þeim," sagði Lampard en Chelsea og Manchester United eiga eftir að mætast tvisvar, fyrst á Brúnni 1. mars næstkomandi og svo aftur á Old Trafford í maí.

„Við verðum helst að ná muninum niður í sex stig þegar við mætum þeim," segir Lampard.

„Hungrið er enn til staðar í búningsklefanum og það er enginn vafi á því. Að vinna titla er eins og ánetjast eiturlyfi. Við viljum upplifa þá frábæru tilfinningu aftur og aftur," sagði Lampard.

„Allir leikmennirnir gera sér vel grein fyrir því að okkur gekk skelfilega í nóvember, desember og inn í janúar. Fótboltatímabil getur þróast þannig en nú er tími fyrir stóru leikmennina og stóru persónuleikana til þess að stíga fram," segir Lampard.

„Leikirnir við Manchester United verða rosalegir en það á eftir að koma í ljós hvort titillinn vinnst í þeim," sagði Lampard að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×