Enski boltinn

Mark Hughes: Eiður Smári gæti fengið samning í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Snári í upphitun með Xavi þegar hann var hjá Barcelona.
Eiður Snári í upphitun með Xavi þegar hann var hjá Barcelona. Mynd/AFP
Mark Hughes, stjóri Fulham, sér það alveg fyrir sér að hann muni gera nýjan samning við Eið Smára Guðjohnsen þegar lánsamingur Eiðs frá Stoke rennur út í sumar. Fulham mætir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á morgun og Hughes tjáði sig um íslenska landsliðsmanninn á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Það var engin áhætta fólgin í því að fá Eið Smára til okkar. Við leyfðum David Elm og Eddie Johnson að fara í glugganum og þurfum því að fá nýjan framherja inn í hópinn," sagði Mark Hughes.

„Eiður hefur rétta upprunan og mikil gæði. Hann hefur sýnt það þennan tíma sem hann hefur verið hjá okkur. Hann mun spila leiki og fær tækifæri til að sýna hvað hann getur," sagði Hughes.

„Eiður vildi bara koma til félags sem spilar leikstíl sem hentar honum, getur hjálpað honum að ná ferlinum aftur af stað og er tilbúið að gefa honum tækifæri til þess að sýna hvað hann getur," sagði Hughes.

„Hann er hér til skamms tíma en við munum skoða málin aftur í sumar og Eiður Smári gæti fengið nýjan samnning. Hann er í góðu formi og er tæknilega einn af okkar bestu leikmönnum," sagði Hughes.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×