Enski boltinn

Torres: Liverpool-liðið kom okkur á óvart

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres.
Fernando Torres. Mynd/AFP
Fernando Torres hefur viðurkennt það að Liverpool hafi komið sér og félögum hans í Chelsea á óvart á Brúnni í gær. Torres lék þarna sinn fyrsta leik með Chelsea en þurfti að sætta sig við 0-1 tap og að vera skipt útaf eftir 66 mínútna leik.

„Þetta var mjög erfitt. Liverpool spilaði vel og var með þrjá menn í vörninni. Við bjuggumst ekki við því og þeir nýttu sér það," sagði Torres sem fékk tvö góð færi í leiknum þar af það fyrra eftir aðeins tæpar tvær mínútur.

„Sanngjörnustu úrslitin hefðu verið jafntefli og það var ekki sanngjarnt fyrir okkur að tapa leiknum. Við horfum samt bara fram á veginn og munum halda áfram að berjast allt til enda. Það er fullt af stigum eftir pottinum," sagði Torres.

Torres var ánægður með móttökurnar á Brúnni en stuðningsmenn Liverpool púuðu þó á hann við hvert tækifæri.

„Auðvitað vilja allir vinna og sérstaklega í fyrsta heimaleiknum sínum. Ég eignaðist samt góðar minningar frá þessum fyrsta leik og ég vil þakka öllum stuðningsmönnum Chelsea fyrir góðar mótttökur," sagði Torres.

„Þetta voru ekki bestu úrslitin en við munum halda áfram allt til loka tímabilsins," sagði Torres.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×