Fótbolti

Kolbeinn ökklabrotinn og spilar ekki meira á árinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í leiknum gegn Real Madrid.
Kolbeinn Sigþórsson í leiknum gegn Real Madrid. Nordic Photos / Getty Images
Kolbeinn Sigþórsson mun ekki spila meira með Ajax Amsterdam á þessu ári en í gær kom í ljós að hann er með brotið bein í ökkla.

Þetta var staðfest á heimasíðu Ajax í morgun en Kolbeinn fór meiddur af velli þegar að Ajax tapaði óvænt fyrir Groningen um helgina, 1-0.

Um álagsbrot er að ræða samkvæmt því sem birtist á heimasíðunni og segir enn fremur að hann muni í fyrsta lagi snúa til baka eftir vetrarfrí hollensku úrvalsdeildarinnar um miðjan janúar næstkomandi.

Þetta er gríðarlega mikið áfall fyrir Kolbein sem kom til Ajax nú í sumar og hefur verið fastamaður í byrjunarliði Ajax. Hann spilaði allan leikinn þegar að Ajax mætti Real Madrid á Santiago Bernabeu í síðustu viku en alls hefur hann skorað fimm mörk í átta deildarleikjum með Ajax.

Kolbeinn dró sig úr íslenska landsliðshópnum um helgina fyrir leikinn gegn Portúgal á föstudagskvöldið en þar að auki mun hann missa af síðustu fjórum leikjum Ajax í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×