Fótbolti

Ronaldo vill spila kveðjuleik með landsliði Brasilíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
Brasilíumaðurinn Ronaldo vill fá tækifæri til að spila einn leik til viðbótar með landsliði Brasilíu en hann tilkynnti í vikunni að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna.

Ronaldo hefur verið hampað sem einum besta knattspyrnumanni sögunnar enda á hann glæsilegan feril að baki.

Hann varð tvívegis heimsmeistari með Brasilíu, 1994 og 2002 en í síðara skiptið var hann aðalmaðurinn í landsliði Brasilíu og skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á Þýskalandi í úrslitaleiknum.

„Ég vil að þetta verði risastór veisla. Ég mun hitta Ricardo Teixeira (forseta brasilíska knattspyrnusambandsins) og ræða við hann um að fá einn leik til viðbótar með landsliðinu," sagði Ronaldo við fjömiðla í heimalandinu.

„Ég vil að leikmenn sem voru með mér komi saman og spili fyrir framan áhorfendur sem elskuðu mig og hjálpuðu mér."

„Þetta fólk á skilið almennilegan kveðjuleik," bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×