Enski boltinn

Berbatov: Sir Alex kann að tala við leikmenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitar Berbatov.
Dimitar Berbatov. Mynd/Nordic Photos/Getty
Búlgarinn Dimitar Berbatov talar vel um Sir Alex Ferguson, stjóra Manchester United, þrátt fyrir að hann fái ekki mörg tækifæri með liði United þessa dagana.

Ferguson keypti Dimitar Berbatov frá Tottenham fyrir 30 milljónir punda fyrir þremur árum en Búlgarinn hefur aðeins verið einu sinni í byrjunarliði Manchester United á tímabilinu.

„Það er ótrúlegt að sjá hvernig Ferguson umgengst og kemur fram við leikmenn. Hann er líka að tala við við og hughreysta þig þegar þú ert meiddur og getur ekki spilað. Manni finnst maður alltaf skipta máli og hann lætur mann alltaf vita hvert hlutverk manns er," sagði Dimitar Berbatov í viðtali á MUTV.

„Sir Alex kann að tala við leikmenn. Ég veit bara hvernig það er með sjálfan mig en það er mjög gott þegar hann kemur til manns fyrir leik og segir nákvæmlega hvað hann vill fá frá manni," sagði Berbatov sem segir stjórann líka alltaf vera að henda spurningum á menn í bæði gríni og alvöru.

"Hann veit hvernig á að gíra mann upp fyrir leiki og hvernig er best að tala við þig hvort sem það er um fótbolta eða einhverja hluti fyrir utan völlinn. Þegar hann talar við hópinn fyrir leiki þá er það eins og þú sért að fara síðasta leikinn á ferlinum. Það er magnað að fylgjast með karlinum og menn þurfa bara að vera vitni að þessu til að skilja það að fullu," sagði Berbatov.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×