Fótbolti

Englendingar ætla að styðja mótframboð við Blatter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn enska knattspyrnusambandsins vonast til að Sepp Blatter, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, fái almennilegt mótframboð þegar kosið verður til embættisins næst.

Blatter hefur þegar gefið út að hann ætli sér að sækjast eftir embættinu í fjórða sinn er kosið verður í júni næstkomandi.

Stjórn enska sambandsins á enn eftir að taka formlega afstöðu til kjörsins en fréttastofa breska ríkisútvarpsins, BBC, hefur heimildir fyrir því að sumir stjórnarmenn telji að breytinga sé þörf.

Mohamed Bin Hammam, forseti nattspyrnusambands Asíu, hefur verið sagður íhuga alvarlega að bjóða sig fram á móti Blatter en Bin Hammam kemur frá Katar sem mun halda HM árið 2022.

„Það kemur til greina að hafa samband við hann og bjóða honum okkar stuðning," sagði ónefndur stjórnarmeðlimur enska knattspyrnusambandsins við BBC. „Okkur finnst þrjú kjörtímabil vera nóg."

Englendingar studdu framboð Blatter þegar hann bauð sig fyrst fram árið 1998. Fjórum árum síðar kusu þeir Issa Hayatou sem tapaði fyrir Blatter í forsetakosningunni.

Blatter fékk svo ekkert mótframboð árið 2007 og eins og málin standa nú hefur enginn tilkynnt mótframboð fyrir kosningarnar í júní.

Englendingar eru ósáttir við hversu illa þeim gekk í kosningu framkvæmdastjórnar FIFA um hvar ætti að halda HM í knattspyrnu árið 2018 en þeir duttu út strax í fyrstu umferð með aðeins tvö atkvæði.

Blaðamaðurinn Grant Wahl frá Bandaríkjunum tilkynnti á dögunum að hann ætlaði sér að bjóða sig fram á móti Blatter en ólíklegt er að hann fái stuðning Englendinga eða margra annarra aðildarríkja FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×