Enski boltinn

Redknapp var hársbreidd frá því að fá Adam frá Blackpool

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Charlie Adam hefur vakið gríðarlega athygli hjá Blackpool.
Charlie Adam hefur vakið gríðarlega athygli hjá Blackpool. Nordic Photos/Getty Images

Harry Redknapp náði ekki að styrkja Tottenham liðið áður en lokað var fyrir félagaskiptin í gær á Englandi. Redknapp var með mörg járn í eldinum og formleg tilboð bárust frá Tottenham í fyrirliða Everton Phil Neville, Charlie Adam hjá Blackpool. Redknapp sagði í dag að það hefði aðeins munað nokkrum mínútum að Adam hefði gengið í raðir Tottenham.

„Daniel Levy hringdi í mig og spurði mig hvort mér líkaði við Charlie Adam. Ég sagði við Daniel að Charlie væri frábær fótboltamaður. Hann spurði mig hvort ég vildi fá hann og ég sagði já," sagði Redknapp í dag. „Við reyndum allt sem við gátum og við vorum vongóðir um að þetta myndi takast en það munaði nokkrum mínútum. Það náðist ekki í tvo hluthafa Blackpool sem þurftu að skrifa upp á pappíra. Þetta gekk ekki og svona hlutir gerast í þessu fagi," sagði hinn litríki knattspyrnustjóri Tottenham.

Redknapp gerði ein bestu kaup tímabilsins á síðustu sekúndunum áður en félagaskiptaglugganum var lokað í ágúst á síðasta ári. Þá keypti Tottenham hollenska framherjann Rafael Van der Vaart frá Real Madrid. Þau kaup voru ekki staðfest fyrr en að enska úrvalsdeildin hafði kannað það sérstaklega hvort kaupin hefðu gengið í gegn með formlegum hætti áður en tímafresturinn var liðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×