Enski boltinn

Vitum að við erum með betra lið en mörg önnur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson ræðir málin við Robin van Persie í viðureign Arsenal og Bolton um síðustu helgi.°
Grétar Rafn Steinsson ræðir málin við Robin van Persie í viðureign Arsenal og Bolton um síðustu helgi.° Nordic Photos / Getty Images
„Það er aldrei gaman að þurfa að taka sér frí frá fótbolta. En ef andlegi þátturinn er ekki 100 prósent þá ertu bara hálfur maður," sagði Grétar Rafn Steinsson í viðtali við Fréttablaðið um ástæður þess að hann missti af tveimur leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni fyrr í mánuðinum.

Grétar Rafn missti af leikjum Bolton gegn Manchester United og Norwich, en báðir töpuðust og var því ákveðið að kalla á Grétar á nýjan leik.

„Ég spilaði svo gegn Aston Villa í deildarbikarnum og unnum við þann leik," segir Grétar, sem var líka með Bolton gegn Arsenal um síðustu helgi. Arsenal vann þann leik, 3-0, og er Bolton í neðsta sæti deildarinnar með aðeins þrjú stig eftir sex umferðir.

Grétar Rafn dró sig út úr íslenska landsliðinu fyrr á þessu ári og skýrði frá því í samtali við Fréttablaðið í byrjun ágúst að það væri vegna persónulegra erfiðleika.

„Undanfarið ár hef ég verið í baráttu utan fótboltavallarins og því miður hef ég af þeim sökum ekki getað gefið hundrað prósent af mér til landsliðsins," sagði hann þá og bætir við nú: „Það er mikil pressa sem fylgir því að spila í ensku úrvalsdeildinni og það hefur verið mikið að gerast hjá mér. Það var því ákveðið að gefa mér smá frí. Þetta var fagleg ákvörðun og ekkert annað sem býr þar að baki. Það átti að nýta aðra leikmenn en svo voru úrslitin bara ekki nógu góð."

Grétar Rafn hefur einnig verið að glíma við hnémeiðsli undanfarin ár en segir að þau hái sér ekki nú. „Þetta hefur verið ákveðið basl en er þó ekki að plaga mig nú. Ég get æft á fullu og verð klár í slaginn fyrir leikinn gegn Chelsea um helgina. Ég mun spila þann leik nema eitthvað stórvægilegt gerist."

Slæmt að tapa fyrir NorwichStaða Bolton í deildinni er slæm en hafa þarf í huga að síðan liðið vann nýliða QPR, 4-0, í fyrstu umferðinni hefur Bolton mætt Manchester City, Liverpool, ManchesterUnited, Norwich og Arsenal. Grétar segir að 2-1 tap fyrir Norwich hafi staðið upp úr sem stærstu vonbrigðin.

„Hefðum við unnið þann leik væri staða okkar í deildinni önnur. Það er vissulega erfitt að byrja tímabilið svona illa og vera í þessari stöðu. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem við lendum í vandræðum og það skiptir mestu að halda í trúna. Við vitum að við erum með betra lið en mörg önnur félög í deildinni," segir Grétar Rafn.

Nýir leikmenn þurfa tímaOwen Coyle, stjóri Bolton, fékk nokkra nýja leikmenn til félagsins í haust og segir Grétar að þeir þurfi tíma. „Við fengum Gaël Kakuta að láni frá Chelsea og keyptum David N'Gog frá Liverpool. Það er góð viðbót og þetta eru virkilega góðir leikmenn. Það hafa ekki verið gerðar miklar breytingar á liði Bolton á undanförnum árum en nú eru 4-5 nýir leikmenn komnir inn og þeir þurfa tíma til að aðlagast liðinu."

Grétar segir ljóst að liðið þurfi að skerpa á sínum leik ætli það sér að ná betri úrslitum. „Við spilum ávallt til sigurs og erum ekki alltaf með alla menn fyrir aftan boltann þegar við verjumst. Það gekk ágætlega í fyrra þó svo að það hafi sína kosti og galla að hafa þessa ákefð í okkar leik. Staða okkar í deildinni er okkur vissulega vonbrigði og við þurfum að fara að ná í stig."eirikur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×