Enski boltinn

Suarez fékk grænt ljós fyrir kvöldið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Suarez við komuna til Liverpool á mánudaginn.
Suarez við komuna til Liverpool á mánudaginn. Nordic Photos / AFP

Luis Suarez mun væntanlega verða í leikmannahópi Liverpool þegar að liðið mætir Stoke í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Liverpool keypti Suarez frá hollenska félaginu Ajax á mánudaginn en einhver bið var á því að Suarez fengi leikheimild með sínu nýja félagi.

Nú hefur hins vegar verið gengið frá allri pappírsvinnu og ekkert því til fyrirstöðu að Suarez spili með Liverpool í kvöld.

Líklegt er að hann byrji á bekknum í kvöld þar sem að hann spilaði síðast með Ajax í desember síðastliðnum. Hann hefur verið að taka út langt leikbann sem hann fékk fyrir að bíta andstæðing í öxlina í miðjum leik.

Liverpool keypti einnig Andy Carroll frá Newcastle áður en félagaskiptaglugginn lokaði en hann á við meiðsli að stríða og spilar því ekki með í kvöld.

Leikur Liverpool og Stoke hefst klukkan 20.00 í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×