Íslenski boltinn

Albert í FH: Búinn að liggja í símanum síðustu daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Brynjar Ingason.
Albert Brynjar Ingason. Mynd/Stefán
Albert Brynjar Ingason er nýjasti FH-ingurinn eftir að hann ákvað í kvöld að yfirgefa Fylki og gera tveggja ára samning við FH.

„Það er mjög ljúft að vera búinn að ákveða sig. Maður er búinn að liggja í símanum og þetta er búið að taka mikið af manni þessa dagana," sagði Albert.

„FH er bara fáránlega freistandi klúbbur og þegar ég hitti Heimi þá var ég strax mjög hrifinn af öllu því sem hann hafði fram að bjóða sem og öllum aðstæðum. Hann labbaði með mér í gegnum þetta og mér leist virkilega vel á þetta," sagði Albert.

„Árangur hjá FH síðustu tíu ár hefur verið frábær og þetta er það lið sem hefur sýnt mestan stöðugleika í deildinni. Mig langar að prófa mig í þessu umhverfi," segir Albert.

„Það hefði verið óskiljanleg ákvörðun að fara frá Fylki í lið sem er ekkert betra en Fylkir eða er búið að vera að berjast á svipuðum stað og Fylkir síðustu ár. Það er aðeins skiljanlegra að fara í lið sem er búið að vera í fyrsta eða öðru sæti síðustu tíu ár," sagði Albert en hann gaf ekki mikið fyrir tenginguna á bak við föður og afa síns.

„Það hafði engin áhrif því þá hefði ég endað í Val," sagði Albert en faðir hans Ingi Björn Albertsson og afi hans Albert Guðmundsson spiluðu langstærsta hluta síns ferils með Val þó að þeir hafi báðir farið seinna í FH.

Albert býst við harðri samkeppni um stöðurnar í FH-sókninni næsta sumar.

„Þeir eru með frábæra sóknarlínu og það verður verðugt verkefni að komast í liðið. Það væri samt ákveðið metnaðarleysi ef maður léti það stoppa sig í því að fara í svona flottan klúbb," sagði Albert en það er rætt meira við hann í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×